Heimaklettur í Vestmannaeyjum
Útsýni til allra átta
Hákollar, hæsti hluti Heimakletts, eru 283 m. frá sjávarmáli. Þaðan má sjá í góðu útsýni Heimaey frá norðri til suðurs, prýdda tveimur keilulaga eldfjöllum, úteyjarnar, nærsveitir meginlandsins, fjöll og jökla, jafnvel langt uppi í landi, Hofsjökul og Langjökul og austur eftir suðurströndinni að Dyrhólaey. Leiðin upp Heimaklett er vinsæl gönguleið, þar sem stigar og stígar leiða göngufólk upp snarbrattar brekkur.
Dufþekja
Dufþakur, þræll Hjörleifs Hróðmarssonar, fóstbróður landnemans Ingólfs Arnarsonar, hefur örugglega ekki verið upptekinn af útsýninu af Heimakletti, þegar hann steypti sér fram af Dufþekju, norðan í Heimakletti og lét þar lífið. Samkvæmt Landnámu á Ingólfur að hafa elt þræla fóstbróður síns út í Eyjar og drepið þá alla til þess að hefna fyrir víg Hjörleifs. Dufþekja hefur freistað margra bjargmanna um aldir, en þeir hafa sótt þangað í auðlindir hennar, fýlsegg, ungfýl og hvönn. Hún er þó víðsjárverð, enda halli hennar á mörkum þess að bera gróður og fuglalíf. Margir hafa hrapað og látið lífið, þegar gróðurspildur hafa látið undan þunga þeirra og skriðið í sjó fram. Áttu illvígar vættir í Dufþekju og Jökulsá á Sólheimasandi að hafa kallast á og keppt um fjölda dauðsfalla, en báðir staðirnir voru illir yfirferðar og mannskæðir. Í Suðurlandsskjálftanum 1896 fórst t.a.m. 18 ára piltur í Dufþekju, Ísleifur Jónsson, bróðir Þorsteins í Laufási. Sé hins vegar litast um og horft suður af brúnum Heimakletts blasir við allt önnur mynd, Vestmannaeyjabær með höfn, húsum og götum.
Ung bæjarásýnd
Bærinn teygir sig frá höfninni suður undir Helgafell og vestur á eyju. Þessi mynd bæjarins er ung og varð nánast algerlega til á seinustu öld, 20. öldinni, en mjög fá mannanna verk frá fyrri tíð eru sýnileg frá þessu sjónarhorni. Aðalathafnasvæði Eyjabúa, höfnin, varð til í núverandi mynd á seinustu öld, og þar sem annarsstaðar á Heimaey hefur mannshöndin gerbreytt öllu með hjálp náttúruaflanna, þar sem hraunið úr Eldfelli 1973 lagði lokahönd á margar minjar fyrri kynslóða.
Hin fornu uppsátur árabáta um aldir, hrófin, eru t.d. algerlega horfin sem og fiskikrær, bæði á landi og á pöllum, þar sem fiskur var verkaður og geymdur. Rammbyggðar bryggjur hafa leyst af hólmi klappir, kletta og sker, sem einkenndu höfnina og nútímaleg fiskverkunarhús risið. Heimaeyjargosið lagði svo mannshöndinni lið og eyddi grónasta hluta Heimaeyjar, austurhlutanum, þar sem tún og engi teygðu sig langt upp í hlíðar Helgafells. Þar með lagðist af landbúnaður sem raunveruleg atvinnugrein í Eyjum. Landakirkja, sem byggð var lengst uppi í heiði á seinni hluta 18. aldar, stendur þó enn, a.m.k. útveggir hennar nærri upprunalegri mynd, nú í miðjum bænum sem vitnisburður um mannlíf sem þá þreifst. Önnur mannvirki, götur og hús, eru hundruðum ára yngri og elstu íbúðarhús ekki eldri en frá fyrstu árum 20. aldar.
Kletturinn heim og heima
Þótt ummerki fyrri alda minni lítið á sig, þegar horft er yfir Heimaey af Heimakletti, hefur hann, sem önnur fjöll og klettar, staðist betur tímans tönn en mannanna verk. Kletturinn hefur gnæft uppúr hafi lengur en land var numið og ávallt síðan verið til marks um skjól í heimahöfn, jafnt á öldum árabáta sem vél- og tæknivædds bátaflota seinustu aldar. Bjargir í bú voru sóttar í Heimaklett sem aðra útkletta og eyjar, kjöt, fiður og egg í fjörugt fuglalífið, og gras og hey fyrir fénað og nautgripi. Fé var haft á fjöllum og er að nokkru enn, og heyjað var í snarbröttum hlíðum og brekkum.
Sæll Birgir
Flott samantekt hjá þér- aðeins ein smá ath. 18. aldar í stað 17. aldar. – –
Landakirkja var byggð 1774-1780 –
Sæll Arnar
Takk fyrir að taka eftir villu í færslu um Heimaklett. Svona á síðan að virka! Láttu mig endilega vita, ef fleira vafasamt stingur í augu og ef þú hefur einhverjar hugmyndir um viðbætur/ breytingar.
Kveðja
Birgir Þór