Keldur á Rangárvöllum

Mynd ESSBALD

Keldur eru sögufræg jörð á Rangárvöllum, fornt klaustursetur, kirkjustaður og minjasafn. Keldur voru vettvangur atburða í Brennu-Njáls sögu og eitt af höfuðbólum Oddaverja. Hér varði Jón Loftsson frá Odda, fósturfaðir Snorra Sturlusonar, elliárunum og hér bjó sonarsonur hans, Hálfdán Sæmundsson og kona hans Steinvör Sighvatsdóttir, dóttir Sighvats Sturlusonar og systir Sturlu Sighvatssonar og Þórðar Kakala.

Klaustrið

Samkvæmt Biskupasögu Þorláks helga, biskups í Skálholti og verndardýrlingi Íslendinga samkvæmt ákvörðun páfastóls, lét Jón Loftsson reisa klaustur að Keldum árið 1193. Jafnframt kemur fram í sömu heimild að sonarsynir Jóns hafi látið rífa klaustrið um 30 árum síðar. Filippus, faðir Randalínar, konu Odds Þórarinssonar frá Valþjófsstað, var barnabarn Jóns Loftssonar og þeirri skoðun hefur vaxið fiskur um hrygg að Valþjófsstaðahurðin komi upphaflega frá klaustri Jóns á Keldum (sjá einnig færsluna um Valþjófsstað). Klaustrið á Keldum er eitt af viðfangsefnum verkefnisins „Kortlagning klaustra á Íslandi“ sem miðar að því að kortleggja þau 14 klaustur sem rekin voru á Íslandi í kaþólskum sið. Könnunarskurður var tekinn í ágúst 2016 og fyrir liggur skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar. Árið 2017 gaf Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur út bókina Leitin að klausturnum þar sem leitinni er lýst og saga allra klaustranna rakin.

Gamli bærinn og jarðgöngin
Jarðgöngin á Keldum

Gamli bærinn á Keldum er stærsti torfbær sem varðveist hefur á Suðurlandi. Elsti hluti bæjarins er talinn vera frá 11. öld sem gerir hann að elsta húsi á Íslandi. Um 25 metra löng jarðgöng sem talin eru vera frá söguöld fundust fyrir tilviljun á síðustu öld.  Göngin, sem liggja frá bænum niður að bæjarlæk, löskuðust mikið í jarðskjálftunum um síðustu aldamót en hafa verið lagfærð. Gestum safnsins er ekki hleypt ofan í göngin.

Kirkjan

Núverandi kirkja á Keldum var byggð 1875 og er henni nú þjónað frá Odda á Rangárvöllum. Kirkjan var upphaflega klædd listaþili og rennisúð en hefur smám saman verið klædd bárujárni. Hún var friðuð árið 1990.

Skildu eftir svar